
Nú er hún Fríða komin á þann aldur að hún er farin að fatta þegar verið er að taka ljósmynd. Hún líkt og allir krakkar sem alast upp á þessum tímum setja því upp sparibrosið um leið og einhver hefur myndavél eða síma á loft.

Þrátt fyrir að úti væri fjúk og hrím og hjarn var Stefán hvergi banginn og renndi sér á hinu frábæra útivistarsvæði sem Klambratún er.

Ef maður klæðir sig vel þá er vel hægt að hafa gaman, m.a.s. í þessum Þrándheimskulda sem boðið hefur verið uppá síðustu daga hér í Reykjavík. Fríða kom líka með okkur út á tún.

Fríða fylgist mikið með sjónvarpinu, hún reyndi að fylgjast með strákunum okkar á EM en missti þráðinn á miðri leið. Nú eru það auglýsingar og Lottó sem heilla hve mest.

Stefán horfði með okkur á Laugardagslögin í gær, þar sem spennan var í hámarki. Okkar menn í Dr.Spock kepptu. Stefán var orðinn svo spenntur að hann fór inn í herbergi og dressaði sig upp í anda Spock. Appelsínugult flísteppi sem skikkja, bláir skíða vettlingar, stjörnunærbolur og náttbuxur var hans framlag. Stefán var reyndar mjög hrifinn af rokk-klæðnaði Óttars Proppé í keppninni og spurði Óttarr á dögunum á förnum vegi hvar hann hafi fengið bleiku glimmerbuxurnar. Þær fengust víst í sérverslun fyrir dansara í Ameríku.