Wednesday, February 13, 2008

Stefán og Fríða á flugi

Fríða Katrín er æði brosmild stúlka. Þessa dagana býður hún ekki bara uppá bros heldur fylgir þessa fína gretta með.

Þess á milli getur hún verið mjög virðuleg og alvarleg í bragði.

Á öskudagsmorgun var það ekki Stefán Bjartur sem kom út úr herbergi sínu heldur var það ofurhetjan Júlíus (þetta tengist víst teiknimyndinni Hin Ótrúlegu eða The Incredibles).

Ofurhetjan flaug á leikskólann í hinum glæsilega búningi sínum, með skikkju og öllu tilheyrandi, og svo aftur til baka, hann lék af als oddi allan daginn.

Allt var þetta voða gaman þar til kom að háttatímanum, þá þurfti að taka málninguna úr andlitinu. Við feðgar reyndum og reyndum en þar sem hvorugur okkar erum reyndir í meiköppi tókst það ekki vel. Drengurinn leit út eins og meðlimur í Addamsfjölskyldunni eða Ragnar Sólberg í hljómsveitinni Sign.

Að síðustu er hér mynd sem tekin var í dag. Þarna situr hún Fríða fremst á gólfinu heima hjá Bjarnveigu en þar voru þær mæðgur í smá mömmuklúbbi. Frá vinstri er Matthías Guðni sonur Elínar vinkonu Bryndísar, Halldór Hvannar sem er frændi Matthíasar, Einar Andrés hennar Kiddýar, Fríða og svo er hún Elísabet Lára hennar Bjarnveigar lengst til hægri.

Saturday, February 2, 2008

Janúarstuð!

Nú er hún Fríða komin á þann aldur að hún er farin að fatta þegar verið er að taka ljósmynd. Hún líkt og allir krakkar sem alast upp á þessum tímum setja því upp sparibrosið um leið og einhver hefur myndavél eða síma á loft.
Þrátt fyrir að úti væri fjúk og hrím og hjarn var Stefán hvergi banginn og renndi sér á hinu frábæra útivistarsvæði sem Klambratún er.
Ef maður klæðir sig vel þá er vel hægt að hafa gaman, m.a.s. í þessum Þrándheimskulda sem boðið hefur verið uppá síðustu daga hér í Reykjavík. Fríða kom líka með okkur út á tún.
Fríða fylgist mikið með sjónvarpinu, hún reyndi að fylgjast með strákunum okkar á EM en missti þráðinn á miðri leið. Nú eru það auglýsingar og Lottó sem heilla hve mest.
Stefán horfði með okkur á Laugardagslögin í gær, þar sem spennan var í hámarki. Okkar menn í Dr.Spock kepptu. Stefán var orðinn svo spenntur að hann fór inn í herbergi og dressaði sig upp í anda Spock. Appelsínugult flísteppi sem skikkja, bláir skíða vettlingar, stjörnunærbolur og náttbuxur var hans framlag. Stefán var reyndar mjög hrifinn af rokk-klæðnaði Óttars Proppé í keppninni og spurði Óttarr á dögunum á förnum vegi hvar hann hafi fengið bleiku glimmerbuxurnar. Þær fengust víst í sérverslun fyrir dansara í Ameríku.