Thursday, June 28, 2007

Sjóræningjar og skemmtileg getraun.

Það er engu líkara að báðar þessar myndir að ofan séu af litlu stelpunni en svo er ekki. Önnur myndin er af Stefáni, hvor myndin er það haldið þið?

Þarna er það hinsvegar morgunljóst að þetta er Stefán. Hann þarf að fara í klippingu!

Stefán er mjög góður við litlu systur sína. Hann er svo góður að það þarf að fylgjast með því hvort hann fari nokkuð inn í svefnherbergi og nái í hana meðan hún er sofandi.

Á Sólhlíð, leikskólanum hans Stefáns var sjóræningjadagur í gær. Stefán var án efa einn sá svakalegasti enda á hann dressið heima hjá sér. Hann hefur mikinn áhuga á sjóræningjum, á mikið af sjóræningjaplaymoi.

Þurý afasystir kom í heimsókn.

Sú litla er afar róleg í ömmustólnum. Af hverju þessi stóll heitir "ömmustóll" veit ég ekki, hvoruga ömmuna hef ég séð í þessum stól.

Sunday, June 24, 2007

Á ferð og flugi

Stefán Bjartur köngulóarmaður leggst í rekkju, í köngulóarmannsnáttfötunum sínum, undir köngulóarmannssængina sína og á köngulóarmannskoddann sinn.

Þarna sjáum við þær vinkonur Elísabetu Láru og ..... litlu. Elísabet kom í heiminn þann 30. maí en hin litla kom 31. maí. Elísabet er dóttir Bjarnveigar og Gunnars og þurfti hún að fara í blóðskipti þegar hún var nýkomin í heiminn og fór svo í ljós. Hún er hin hressasta í dag.

,,Á uppleið" gæti þessi mynd heitið. Þarna er engu líkara en að Stefbjartur sé í miklu fjallaklifri en við vorum í miðjum hjólatúr þegar við stoppuðum á leikskólanum við Bogahlíð.

Þarna er sú litla í partýi hjá Sunnu á Hjarðarhaganum en þar voru þær Bryndís, Bjarnveig og Elísabet, og Elín og sonur hennar Matthías Guðni. Elín er skólasystir Bryndísar og Sunnu úr Kennaraháskólanum. Á myndinni er Matthías í svaka stuði en sú stutta sefur vært í töffarastellingu.

Monday, June 18, 2007

Nýjar myndir

Sú stutta mannast með hverjum deginum. Hún er ferlega lík bróður sínum og ekki batnar það þegar hún er klædd í fötin hans líka.

Stefán Bjartur er þarna að kenna henni fáein trix í því hvernig maður á að haga sér.

Á laugardaginn útskrifaðist Bryndís úr kennaraháskólanum. Hún er nú orðin kennari og þarna sést hún með nemendum sínum í Barmahlíð.

Þarna er amma Steina með þá stuttu og hjá þeim situr frú Guðrún langamma.

Thursday, June 14, 2007

Vinir í heimsókn og gönguferðir

Pabbinn með börnin sín í fanginu.

Á skiptiborðinu er oft mikill atgangur, þarna sér Stefán stóri bróðir um skemmtiatriðin.

Kiddý, Einar Andrés og Sunna kíktu í heimsókn í dag. Þarna eru Kiddý og Einar Andrés að skiptast á fæðingarsögum við Bryndísi.

Stefáni finnst það skipta miklu máli að vera "rokkari". Þegar honum er rétt leikskólaföt á morgnana neitar hann að klæðast þeim nema að fötin séu rokk og ról....hvað sem það nú þýðir. Þessi mynd mynda sóma sér vel í hvaða rokktónlistarblaði sem er þessa dagana.

Mér finnst rosalega gaman að labba í fína veðrinu með vagninn, og hún sefur rosalega vel á meðan. Það skal samt viðurkennast að mér þótti ég hálf plebbalegur í dag með vagninn í annari og kaffibollann í hinni.

Á þriðjudaginn komu Íris Ragnars og Baldvina Þurý í heimsókn. Þarna eru þær frænkur í góðu stuði...a.m.k. önnur þeirra. Fyndið að sjá hárlubbana á þeim, það eru engu líkara en að þetta séu einhverskonar hanakambar.

Monday, June 11, 2007

Sumarhátíð, bíltúr og gönguferð.

Fyrsti göngutúrinn lagðist vel í stelpuna, hún svaf allan tímann.

Mæðgurnar ákváðu að taka þátt í sumarhátíð Stefáns á Sólhlíð.

Spiderman...? Nei, þetta er Stefán Bjartur í gervi Köngulóarmannsins.
Stefán er kominn á þann aldur að Bangsímon hefur þurft að láta í minni pokann
fyrir Spiderman. Í dag var sumarhátíð á leikskólanum. Bárður frændi kom með okkur í skrúðgöngu en fór svo og hitti vini sína. Ég náði því ekki að taka mynd af honum en hann var glæsilegur í gervi Jack Sparrow sjóræningja úr Pirates of the caribbean.

Í dag fengum við stærðarinnar sendingu frá samstarfsfólki mínu (þ.e. Kristjáns) hjá Pennanum. Í pakkanum var glæsilegur kistill með nokkrum glæsilegum munum, m.a. gjafabréf í barnadótabúð, púði, teppi, kerti og bangsi. Þvílíkt og annað eins!

Í morgun mætti til okkar hjúkrunarfræðingur frá Heilsugæslunni í Hlíðunum. Hún skoðaði stelpuna í bak og fyrir, vigtaði og mældi. Hún fékk skoðun. Stelpan var 4150 gr. þegar hún yfirgaf sjúkrahúsið en núna viku seinna er hún orðin 4600 gr. Þetta er greinilega engin undanrenna hjá henni Bryndísi.

Fyrsti sunnudagsbíltúrinn, allir fengu ís nema hún. Hún svaf allan tímann.

Þarna er hún á leiðinni út á rúntinn. Hún kom líka heim í þessum glæsilegu fötum en frænka hennar Þurý Símonar prjónaði þennan alklæðnað á hana og gaf henni. Þurý er náttúrulega ekkert annað en listamaður á heimsmælikvarða.


Eftir fyrstu vikuna heima ákváðum við að hressa okkur við og fara í bíltúr saman. Allir glöddust mjög við þessa hugmynd...sérstaklega þegar hugsanleg rjómaískaup voru nefnd (það sést kannski hver brosir mest á myndinni).

Saturday, June 9, 2007

Fyrstu dagarnir

Hér eru nokkrar myndir af fyrstu dögunum hjá stóru fjölskyldunni. Allar myndirnar eru teknar á hina glænýju og fínu myndavél sem við keyptum í vikunni. Þess vegna ber að geta þess að ef þið smellið á myndirnar hér að neðan þá birtast þær mjög stórar. Við eigum aðeins eftir að stilla upplausnina.
Þarna er sú litla þreytt eftir fyrstu baðferðina sína.

Öll fjölskyldan hjálpaði til við fyrstu baðferðina.

Hún vissi varla hvað okkur gekk til með að dýfa henni oní vatnið.
Naflastrengsafgangurinn datt skömmu síðar af.

Stefán Bjartur er mjög duglegur að hjálpa til með litlu systur sína.

Frænkurnar Maja og Bryndís komu í heimsókn í gær. Þarna hlustar sú stutta
af mikilli einbeitingu á Maju.

Hún er alltaf geispandi. Bæði börnin hafa sama geispa og mamma þeirra.

Hún er eitthvað hissa þarna, kannski flassið frá myndavélinni.

Þetta er ein fyrsta myndin sem var tekin á nýja myndavélina.